
Ný samræmd próf í lesskilningi og stærðfræði hafa nú verið lögð fyrir 7.000 nemendur í 26 skólum landsins en greint er frá þessu í tilkynningu frá stjórnarráði.
Samkvæmt henni er fyrirlögninni var ætlað að prufukeyra nýtt samræmt námsmat, Matsferil, þannig að hægt verði að leggja ný samræmd próf fyrir nemendur frá 4. bekk og upp úr í öllum grunnskólum landsins næsta vor.
Um er að ræða fjórtán ný próf, sjö í lesskilningi og sjö í stærðfræði. Prófin verða skyldubundin í 4., 6. og 9. bekk samkvæmt frumvarpi sem nú er til meðferðar á Alþingi. Tilgangur þessarar fyrirlagnar var að leggja lokahönd á stöðlun og þróun prófanna, auk þess að prófa þau í framkvæmd. Fyrirlögnin gekk vel að mati yfirvalda og vinnur Miðstöð menntunar og skólaþjónustu nú úr niðurstöðunum.
Vill að innleiðing gangi hratt fyrir sig
„Eitt af mínum helstu stefnumálum er að bæta læsi og lesskilning barna – það er undirstaða lærdóms og betri menntun þýðir meiri frami og minni fátækt. Þar gegnir snemmtæk íhlutun lykilhlutverki en til þess þurfum við betri greiningartól. Búið er að undirbyggja vel nýtt námsmat og er nú komið að innleiðingu sem ég mun beita mér fyrir að gangi hratt og snurðulaust fyrir sig,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, um prófin.
„Við erum í skýjunum yfir hvernig til tókst og viljum færa öllum þeim sem komu að þessu mikilvæga verkefni okkar allra bestu þakkir. Jákvætt viðhorf kennara og skólastjórnenda skipta sköpum, svo ekki sé minnst á öll börnin sem þreyttu prófin,“ segir Freyja Birgisdóttir, sviðsstjóri matssviðs hjá Miðstöð menntunar og skólaþjónustu: „Það verður auðvitað bylting að geta fylgst með námsframvindu hvers einasta barns nánast í rauntíma og þannig mætt hverju þeirra þar sem þau eru stödd hverju sinni.“
Komment