
Framleiðandinn og fjölmiðlamaðurinn Garpur Ingason Elísabetarson greinir frá því í færslu sem hann setti á samfélagsmiðla í dag að honum hafi verið sagt upp störfum hjá Sýn og framleiðsludeildin sem hann vann fyrir lögð niður. Ekki liggur fyrir hversu margir misstu vinnu sína.
„Ég hef unnið mörg hundruð þætti af Ísland í dag, þáttaseríur uppá fjöllum, umfjallanir fyrir Vísi, beinar útsendingar frá Bakgarðshlaupum. Endalaust af allskonar öðruvísi verkefnum, jólabókalestur í beinni, jólaskreytingakeppni og auðvitað myndir um ofurfólk; Mari, Þorstein Roy og Andreu Kolbeins.
Það sem stendur uppúr eru vinnufélagarnir. Ég hef fengið að starfa með þvílíkum hæfileikabúntum sem ég er svo heppinn að getað kallað vini mína í dag,“ skrifaði Garpur meðal annars.
„Ég á þó einhver verkefni inni, Okkar eigið Ísland sem verður sýnt í sumar/haust og að sjálfsögðu Bakgarðshlaupið sem verður í maí.
En ég vil þakka fyrir mig og öll þau tækifæri og verkefni sem ég hef fengið að kljást við, og bíð spenntur eftir að sjá hvert lífið fer með mig núna.“
Mannlíf hefur undanfarna mánuði fjallað um starfsmannamál Sýnar en tugir starfsmanna hafa horfið á braut síðan Herdís Dröfn Fjersted tók við sem forstjóri í janúar í fyrra.
Herdís hefur ekki svarað fyrirspurnum Mannlífs um starfsmannamál fyrirtækisins.
Komment