
Tinna Rut Isebarn, framkvæmdastjóri Landssambands ungmennafélaga, hefur tilkynnt að hún muni láta af störfum sem framkvæmdastjóri LUF í júní en hún gerði það á stjórnarfundi hjá LUF fyrir stuttu síðan.
Tinna hefur starfað sem framkvæmdastjóri samtakanna síðan 2015 en LUF er regnhlífasamtök fyrir félagasamtök ungs fólks á Íslandi og þeim tilheyra 41 aðildarfélög. Markmið þeirra er að vernda og efla réttindi ungs fólks, valdefla ungt fólk í samfélaginu og hvetja til virkrar samfélagsþátttöku þeirra, efla samstarf ungmennafélaga og stuðla að umræðu og þekkingarsköpun um málaflokkinn.
„Öllum markmiðum mínum í starfi hefur verið náð og tímabært er að rétta frá mér keflið. Undangengin næstum 10 ár eða hálfa tilvist félagsins hef ég lagt líf og sál í málstaðinn. Ég er þakklát fyrir það traust sem mér hefur verið sýnt og er stolt af mínum umbótastörfum fyrir félagið. Ég tel mig afar lánsama að hafa fengið tækifæri til að ná árangri með einstöku fólki sem myndað hefur órjúfanlega vináttu,“ sagði Tinna og óskaði samtökunum gæfu og góðs gengis í framtíðinni.
Tinna hefur ekkert gefið upp hvað tekur við hjá henni þegar hún lætur af störfum.
Komment