
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra telur að Rússland sé helsta ógn Evrópu eins og staðan er í dag. Sagði hún þetta í tilefni af utanríkisráðherrafundi Norðurlandanna, Eystrasaltsríkjanna, Frakklands, Þýskalands og Póllands sem fram fór í Danmörku fyrr í vikunni.
„Mikill samhugur ríkti á fundi okkar í dag um að áframhaldandi og óbilandi stuðningur við Úkraínu þurfi að vera í algjörum forgangi í gjörbreyttu öryggisumhverfi álfunnar þar sem Rússland er helsta ógnin. Ísland mun ekki láta sitt eftir liggja í þeim efnum,“ sagði Þorgerður.
„Við ræddum einnig um mikilvægi þess að efla samvinnu ríkjanna til að sporna við síbreytilegum og vaxandi fjölþáttaógnum, hvort sem um er að ræða skemmdarverk, netárásir, upplýsingaóreiðu eða athafnir skuggaflotans svokallaða. Það er nauðsynlegt að sýna árvekni í þessum efnum og eiga í samráði við okkar vina- og bandalagsríki, enda virða þessar aðgerðir engin landamæri.“
Í sameiginlegri yfirlýsingu sinni lýstu ríkin áframhaldandi stuðningi við varnarbaráttu Úkraínu gegn ólöglegu innrásarstríði Rússlands.
Komment