
Árleg kafbátaeftirlitsæfing Atlantshafsbandalagsins „Dynamic Mongoose 2025“ fer fram dagana 28. apríl til 9. maí á hafsvæðinu á milli Íslands og Noregs samkvæmt tilkynningu frá stjórnarráðinu og að sögn þess er meginmarkmið æfingarinnar er að efla getu og samhæfingu þátttökuríkjanna við kafbátaeftirlit, yfirborðsvarnir og sameiginleg viðbrögð við aðsteðjandi ógnum.
„Þátttaka og stuðningur við kafbátaeftirlitsæfinguna er mikilvægt framlag Íslands til öryggis- og varna ríkja Atlantshafsbandalagsins, þar með talið Íslands. Hún undirstrikar skuldbindingar okkar, getu og vilja til að beita okkur í spennuástandi og er einnig mikilvægur liður í sameiginlegum fælingarmætti bandalagsins. Aukin áhersla hefur verið lögð á öryggismál á Norður-Atlantshafi undanfarin ár í tengslum við umsvif Rússa á svæðinu og því lykilatriði að æfa og samhæfa varnir okkar og viðbrögð,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra.
Ísland er gistiríki æfingarinnar annað hvort ár til skiptis við Noreg og gegnir því hlutverki í ár.

Komment