
Sífellt bætist í hóp mótmælenda fyrir utan utanríkisráðuneytið en skyndimótmæli voru boðuð þar klukkan níu í morgun af Félaginu Ísland-Palestína.
Ríflega 100 manns voru á mótmælunum þegar blaðamaður Mannlífs mætti á svæðið og enn voru að tínast í hópinn nýjir mótmælendur. Mótmælin voru boðuð eftir að Sameinuðu þjóðirnar vöruðu við því í gær að verði ekki almennilegri neyðaraðstoð komið til Gaza-búa, sé áætlað að 14.000 börn deyi hungurdauða á næstu 48 klukkustundum.

„Þorgerður Katrín, komdu út!“ hrópaði söngkonan Margrét Kristín Blöndal eða Magga Stína í gjallarhorn og mótmælendurnir endurtóku svo ómaði um svæðið. Þá voru einnig slagorð á borð við „Þið eruð samsek!“ og „Gerið eitthvað!“. Þá hafði gerviblóði verið slett á stéttina fyrir utan ráðuneytið.

Krafturinn í þessum mótmælum er meiri en oft áður enda lítill tími til stefnu. Lögreglan var ekki sjáanleg þó hún hafi örugglega verið nálægt. Ekkert bólaði á Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, utanríkisráðherra á meðan blaðamaður Mannlífs var á staðnum.
Komment