
Frá og með 1. júní næstkomandi verður ekki lengur hægt að staðgreiða fargjöld með reiðufé um borð í Strætó á höfuðborgarsvæðinu en þetta kemur fram í tilkynningu frá Strætó.
Þetta á þó ekki við um landsbyggðarvagna þar sem áfram verður hægt að borga með reiðufé eða greiðslukorti.
„Úrval greiðslumöguleika hefur aukist en nú er til dæmis hægt að greiða snertilaust með greiðslukorti um borð í öllum vögnum innan höfuðborgarsvæðisins en einungis 2,3% viðskiptavina greiða nú með reiðufé um borð í Strætó.
Hægt er að kaupa Klapp tíur og Klapp kort með reiðufé á sölustöðum Strætó en samhliða þessari breytingu verður sölustöðum fjölgað og frá og með 1. júní verður hægt að kaupa Klapp tíur og kort í flestum sundlaugum innan Reykjavíkur.“
Þá er viðskiptavinum einnig bent á að nota Klapp appið til að greiða fyrir strætóferðir.
Áfram verður hægt að kaupa fargjöld með reiðufé í móttöku Strætó sem staðsett í Hesthálsi 14.
Komment