
Verðtryggð húsnæðislán landsmanna munu hækka um tæplega eitt prósent í næsta mánuði, eftir að nýjar tölur um þróun vísitölu neysluverðs sýndu stórt stökk. Þetta er mesta hækkun vísitölunnar síðustu tólf mánuði.
Breytingin á vísitölu neysluverðs í apríl einum og sér myndi jafngilda því að verðbólga væri rúm 11% á einu ári.
Vísitalan hækkaði um 0,93% í aprílmánuði.
Þannig mun höfuðstóll 50 milljóna króna verðtryggt fasteignalán hækka um 465 þúsund krónur í maímánuði einum og sér, eða um 15 þúsund krónur á dag, fyrir utan vexti og afborgun. Lántakendur geta því fylgst með hækkuninni dag frá degi í maí.
Helstu ástæðurnar fyrir hækkun verðbólgunnar eru hækkun flugfargjalda til útlanda um 20,4%, reiknuð húsaleiga (1,1%) og verðhækkun á mat- og drykkjarvörum um 0,8% í þeim mánuði einum og sér.
Hækkun á flugfargjöldum er árstíðarbundin í apríl, en í ár er hún meiri en síðustu ár, ef frá er talið árið 2022. Hækkunin var aðeins 10,5% í fyrra.
Þetta þýðir að verðbólga, hækkun vísitölunnar síðustu 12 mánuði, hækkar úr 3,8% í 4,2%. Matvara hefur hins vegar hækkað umfram almenna verðbólgu, þrátt fyrir góða afkomu matvörukeðjanna, eða um 5,7%.
Helstu matvörukeðjur landsins hafa skilað miklum hagnaði síðasta árið, eins og Mannlíf hefur greint frá, og leiða Hagar og Festi, sem reka Bónus og Krónuna, hækkanir í Kauphöllinni síðasta árið.
Komment