
Í dagbók lögreglu frá því í nótt er greint frá því að tilkynnt hafi verið mann í annarlegu ástandi að kasta grjóti í átt að bifreiðum og vegfarendum. Manninum var veitt tiltal og vísað á brott.
Þá var leigubílstjóra veitt aðstoð vegna farþega sem neitaði að greiða fargjald og var það leyst án vandræða. Ökumaður var stöðvaður vegna hraðaksturs en hann mældist á 108 km hraða þar sem hámarkshraði er 50 km/klst. Ökumaðurinn var sviptur ökuréttindum á staðnum.
Tilkynnt var um slagsmál milli tveggja aðila. Reyndust vera nágrannaerjur þar sem á endanum sauð með öllu upp úr. Málið er í rannsókn að sögn lögreglu.
Lögreglumenn við eftirlit veittu bifreið athygli þar sem henni var ekið nokkuð yfir hámarkshraða. Ökumaður sinnti ekki stöðvunarmerkjum og gerði tilraun til að flýja lögreglu svo upp hófst stutt eftirför. Ökumaður var víðáttuölvaður og gat með engu móti gert grein fyrir sér. Hann var handtekinn og vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.
Komment