
Palestínska blaðakonan Bisan Owda segir að aðstæður í Gaza séu orðnar með öllu óbærilegar þar sem Ísraelsher hafi lokað á aðgang að mat og vatni og haldi áfram að gefa út endurteknar brottflutningsskipanir, þrátt fyrir að Palestínumenn hafi varla neinar leiðir til að leita skjóls.
„Við finnum fyrir því að þetta sé orðið enn erfiðara vegna þess að við höfum hvergi að fara. Í upphafi þjóðarmorðsins flúði ég heimili mitt og fór á Al-Shifa sjúkrahúsið. Ég var þar á vergangi með fjölskyldunni í garðinum í heilan mánuð. Núna veit ég alls ekki hvert ég á að fara ef staðurinn sem ég dvel á verður rýmdur. Ísraelski herinn er stundum að birta brottflutningsskipanir oftar en einu sinni á dag,“ sagði Owda í viðtali við Al Jazeera.
„Í tvær vikur hef ég aðeins fengið eina máltíð á dag, vegna þess að Ísrael hefur stöðvað allan aðgang að matvælum til Gaza í 77 daga. Hugsið ykkur, læknar, hjúkrunarfræðingar, slökkvilið, allt neyðarviðbragðsfólk, lifir við þetta ástand. Við erum örmagna, við erum svo þreytt, við fáum ekki næga næringu, fjölskyldur okkar eru á vergangi, og við stöndum frammi fyrir þessu öllu með berum höndum,“ bætti hún við.
Bisan varð heimsfræg fyrir hugrekki sitt en hún hefur frá 7. október flutt fréttir af Gaza-svæðinu, oft undir skelfilegum aðstæðum en árið 2024 hlaut hún Emmy-verðlaun fyrir fréttaseríurnar It's Bisan from Gaza and I'm Still Alive.
Komment