
Aðili á mótorhjóli ók í gegnum rúðu í skóla í Hafnarfirði í gærkvöldi, samkvæmt fréttum lögreglunnar af atburðum liðinnar nætur. Hann gerði það fyrir slysni og slapp með minniháttar áverka.
Annar missti stjórn á rafhlaupahjóli og olli skemmdum á tveimur ökutækjum. Þar var óförunum ekki lokið, því lögregla stóð hann að því að vera undir áhrifum áfengis. Hann var handtekinn, en fluttur á slysadeild með áverka á andliti og hendi.
Þriðji aðilinn á svæði lögreglunnar í Hafnarfirði var á bifreið. Hann ók ítrekað utan í vegrið og á vegkanta á ferðum sínum. „Hann var vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins,“ segir í dagbókarskýrslu lögreglunnar.
Fögnuður og tryllingur í Reykjavík
Í miðborg Reykjavíkur var meira um misbrest í samskiptum en misheppnaðar samgöngur. Þar var „nokkuð um hávaðaútköll, ölvaða einstaklinga og slagsmál í miðborginni enda mikið um að vera, bæði skipulagða viðburði og margir að fagna útskriftum.“
Aðrir fögnuðu síður. Einn maður kaus að „ganga í skrokk á öðrum“ og lét ekki þar við sitja, heldur braut rúður í nokkrum bílum. Eins og lýsingin ber með sér reyndist hann í annarlegu ástandi og var vistaður í fangaklefa.
Lengst gekk nóttin þegar sérsveitin var kölluð út. Þá var tilkynnt um mann ógna öðrum með hníf í heimahúsi. Hann var handtekinn af sérsveitinni, fluttur á lögreglustöðina og vistaður í fangaklefa.
Maður bankar á hurðar - er með múrstein
Í Kópavoginum var einnig maður við hnífaburð, en hann slapp. „Tilkynnt um mann á gangi með hníf í hendi, aðilinn fannst ekki þrátt fyrir mikla leit,“ segir lögreglan. Annar maður á Kópavogssvæðinu var ekki svo heppinn með sitt athæfi. Þá var tilkynnt um „aðila í annarlegu ástandi á stigagangi að banka á hurðar“. „Þegar að lögregla kom á vettvang tók aðilinn á móti lögreglu með múrstein í hendi. Aðilinn reyndi að flýja lögreglu en án árangurs og var maðurinn vistaður í fangaklefa,“ segir lögreglan.
„Þegar þetta er ritað gista fjórir í aðilar fangaklefa,“ skrifaði fulltrúi lögreglu í dagbók hennar í morgun. Framangreind voru aðeins nokkur af 80 málum sem bókuð voru í kerfi lögreglunnar í nótt.
Komment