
Fyrirtækið Hagavatnsvirkjun ehf. hyggst reisa 9,9 megavatta vatnsaflsvirkjun við Hagavatn, sunnan Langjökuls í Bláskógabyggð.
Samkvæmt áformunum yrðu reistar tvær stíflur: önnur ofan við núverandi útrás vatnsins, fyrir ofan Nýjafoss, og hin við gömlu útrásina vestan megin, fyrir ofan Leynifoss. Með þessum breytingum myndi Nýifoss, foss sem myndaðist í jökulhlaupi á síðustu öld, þorna upp. Áður en umrædd jökulhlaup áttu sér stað var Hagavatn mun stærra. Þetta kemur fram í frétt Bændablaðsins.
Þar segir einnig að Hagavatn liggi við suðurrætur Langjökuls og renni út úr því um Nýifoss niður í Farið, vatnsfarveg milli Jarlhetta og Einfells að austan og Brekknafjalla að vestan. Ferðafélag Íslands rekur gönguskála á svæðinu og samkvæmt áætlunum mun stöðvarhús virkjunarinnar og frárennslisskurður verða í um eins kílómetra fjarlægð frá skálanum. Til að komast að framkvæmdasvæðinu þyrfti að leggja sjö kílómetra aðkomuveg frá Skjaldbreiðarvegi.
Umhverfismatsskýrslan fyrir framkvæmdina var kynnt fyrr á árinu, en Skipulagsstofnun hefur ekki enn lokið við gerð álits síns. Þar sem fyrirhuguð virkjun er undir 10 MW að afli fellur hún utan Rammaáætlunar. Landvernd hefur þó bent á í umsögn sinni að nánast sams konar virkjun, en með 20 MW afli, sé nú þegar í biðflokki Rammaáætlunar vegna mögulegra neikvæðra umhverfisáhrifa.
Í dag er Hagavatn fjóra til fimm ferkílómetra að flatarmáli, en verði virkjunin að veruleika myndi vatnið ná 17 ferkílómetrum í lægstu stöðu og allt að 23 ferkílómetrum í hæstu stöðu. Gert er ráð fyrir að hæð vatnsborðs sveiflist um allt að fimm metra, að því er segir í Bændablaðinu.
Komment