
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lítur mál lögreglumannsins sem fjallað var um í Kveik í gærkvöldi, mjög alvarlegum augum.
Í yfirlýsingu sem barst fjölmiðlum rétt í þessu, segir að um leið og lögreglustjóra lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu varð kunnugt um efni þáttarins, hafi téður lögreglumaður, Lúðvík Kristinsson, verið sendur í leyfi, á meðan málið er rannsakað.
Þá segir lögreglan að í tilefni málsins hafi embætti lögreglustjórans aukreitis sett af stað athugun á aukastörfum starfandi lögreglumanna.
Hér má lesa yfirlýsinguna í heild sinni:
Í tilefni af umfjöllun fréttaskýringaþáttsins Kveiks vill embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu koma eftirfarandi á framfæri.
Þegar lögreglustjóra varð kunnugt um efni umfjöllunar Kveiks í gær var málið sent þá þegar, að frumkvæði embættisins, til meðferðar hjá embætti ríkissaksóknara. Í beinu framhaldi var viðkomandi lögreglumaður sendur í leyfi á meðan rannsókn þess fer fram.
Í tilefni þessa máls hefur embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu jafnframt sett af stað athugun á aukastörfum starfandi lögreglumanna. Í gildi eru reglur um slíkt þar sem gert er ráð fyrir að sækja þurfi um sérstaka heimild til þess að sinna öðrum störfum samhliða.
Embættið lítur málið mjög alvarlegum augum. Afar mikilvægt er að lögreglan njóti trausts meðal borgaranna til þess að hún geti rækt hlutverk sitt. Skýrar kröfur eru gerðar til þess að störf lögreglu séu unnin af fagmennsku og innan þeirra heimilda og reglna sem hún starfar eftir. Verði misbrestur þar á er tekið á þeim málum af festu.
Að öðru leyti mun embættið ekki tjá sig um mál það sem nú er til meðferðar hjá ríkissaksóknara.
Komment