
Í dagbók lögreglu frá því í dag er greint frá því að lögreglan hafi þurft að grípa inn í slagsmál í verslun milli starfsmanns og viðskiptavinar. Það mál leystist að sögn lögreglu.
Maður var færður úr miðborginni og á lögreglustöð en hann hafði verið til vandræða í miðbænum. Var um stund ógnandi gagnvart lögreglu og neitaði að segja til nafns. Hann skipti þó um skoðun og skildu leiðir frá lögreglustöð.
Tilkynnt var um ölvaðan mann að stýra báti. Hann hafði siglt utan í annan bát og svo í grjótgarð. Hann var handtekinn og málið afgreitt á lögreglustöð.
Þá var manni vísað úr húsi að beiðni húseiganda og var það gert vegna ósættis.
„Hér voru 10 sem gistu fangageymslur í morgun en öll þau mál voru afgreidd fyrir hádegi og því léleg „nýting“ gistirýmum hér, sem er hið besta mál. Þá hefur ekki verið mikið að gera í dag og óskandi að svo verði áfram inn í nóttina og að allir vakni á réttum stað á morgun,“ segir einnig í tilkynningu lögreglunnar.
Komment