
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra, ásamt leiðtogum sex ríkja í málefnum Palestínu, undirritaði í dag sameiginlega yfirlýsingu þar sem leiðtogarnir lýsa því yfir að tafarlausra aðgerða sé þörf til að koma í veg fyrir frekari hörmungar á Gasa en greint er frá þessu á vef stjórnarráðsins
Í yfirlýsingunni segja forsætisráðherrar Íslands, Spánar, Noregs, Írlands, Lúxemborgar, Slóveníu og Möltu að til þessa hafi yfir 50 þúsund manns látið lífið á Gasa og margir til viðbótar muni svelta í hel á komandi dögum ef ekkert verður að gert. Þá hvetja leiðtogarnir stjórnvöld í Ísrael að breyta stefnu sinni tafarlaust, stöðva hernaðaraðgerðir á Gasa og tryggja óheftan aðgang hjálpargagna frá alþjóðlegum mannúðarsamtökum inn á svæðið.
Kristrún er nú stödd í Tirana í Albaníu og fundaði þar með hinum leiðtogunum í tilefni yfirlýsingarinnar og þeirrar skelfilegu stöðu sem uppi er á Gasa.
„Frumkvæði þessa hóps og sá stuðningur við Palestínu sem fram kemur í yfirlýsingunni skiptir mjög miklu máli. Staðan á Gasa er hryllileg, hún versnar með hverjum deginum sem líður, og við getum ekki setið lengur þögul hjá. Þetta er í fyrsta sinn sem yfirlýsing er gefin út á leiðtogastigi og það bendir til þess að afstaðan sé að breytast. Ég bind vonir við að þessi yfirlýsing, ásamt öðrum ferlum sem eru í gangi á alþjóðavettvangi, leiði til stærri skrefa í málum Palestínu,“ segir Kristrún.
„Við erum að hittast hér í Tirana til að ræða öryggismál í Evrópu en hljóð og mynd þurfa að fara saman. Við erum sammála um að það sem er að gerast á Gasa þurfi að ræða í samhengi við öryggi, ekki síst öryggi í Evrópu. Það varðar hag okkar allra að koma á friði í Palestínu. Fyrir utan þann augljósa siðferðislega vinkil sem er á málinu, enda öllum ljóst að verið er að beita hungri sem vopni og alþjóðleg lög margbrotin. Það var þungur tónn í umræðum okkar og ljóst að þolinmæði gagnvart óbreyttu ástandi er á þrotum. Ég lýsti yfir fullum vilja Íslands til að halda þessu samtali áfram og taka þátt í öllum aðgerðum sem mögulega væri hægt að grípa til.“
Komment