
Ung íslensk kona sem býr nærri Basel í Sviss, segir að lögreglan í Basel hafi bannað henni og fleiri stuðningsmönnum Palestínu að veifa palestínska fánanum nærri Eurovision-höllinni í Basel í gær.
Konan, sem hefur tekið þátt í mótmælum gegn þjóðarmorðinu á Gaza ræddi við Mannlíf í síma, en hún vill ekki láta nafn síns getið vegna þess hversu erfitt sé að vera opinn stuðningsmaður Palestínu í Þýskalandi en hún býr í Freiburg, sem er nærri landamærum að Sviss.

Segir konan að mótmælin sem hún hafi tekið þátt þessa vikuna í Basel, hafi verið afar friðsöm og að lögreglan þar í borg hafi ekki beitt óþarfa ofbeldi, ólíkt starfsbræðrum sínum í Þýskalandi, sem hafa beitt mótmælendur ítrekað ofbeldi frá því að stríðið á Gaza hófst enn og aftur 7. október, 2023. „Mér finnst þetta hafa verið allt mjög friðsamlegt, en það eru auðvitað aðilar á báðum hliðum sem eru extreme, sem hafa brotið reglur en á þeim mótmælum sem ég hef mætt á hefur allt verið mjög friðsælt. Þau vita það að það er ekkert gagnlegt ef þau brjóta reglur því þá koma þau ekki skilaboðunum til skila.“

Konan segist aðeins hafa séð eina handtöku en þá voru mótmæli þegar keppendur Eurovision mættu á rauða dregilinn á sunnudaginn en þá var kona handtekin fyrir að setja fyrir framan sporvagn ísraelska keppandans. „Og hún var handtekinn en það var það eina,“ segir konan í samtali við Mannlíf.
Segir hún að mótmælendur hafi talið í hundruðum á sunnudaginn og að búist sé við fjölmennum mótmælum á morgun, þegar úrslitakvöld Eurovision fer fram.
„Svo vorum við að mótmæla í gær fyrir utan höllina en við vorum bara örfá. Það var eiginlega ekki planið að mótmæla, við ætluðum að gefa áhorfendum á leið í höllina miða, svona til þess að upplýsa þá um ástandið. Að þau væru að fara að horfa á Ísrael stíga á svið, sem bera ábyrgð á þessum stríðsglæpum. En við sem sagt máttum sem sagt ekki neitt. Við máttum varla vera með fánann.“

Konan segist hafa séð myndskeið í fjölmiðlum í Basel og á samfélagsmiðlum af mótmælunum á sunnudag, þar sem búið var að taka Palestínufánana út með hjálp photoshop. „Þannig að stuðningurinn er mikill en þöggunin er meiri.“

Aðspurð segir konan stuðningsmenn Ísraels vera þó nokkra í Basel um þessar mundir og að í einhverjum tilfellum hafi hennar hópur orðið fyrir hrópum og ógnandi hegðun frá þeim. „Mér finnst þau eiga alveg líka eiga rétt á mótmælum,“ segir konan bætir við að í gær hafi þeir verið fleiri en hennar hópur. „Samt var engin lögreglan í kringum þau, þar sem Ísrael er að keppa í Eurovision.“ Segir hún að hingað til hafi hún ekki orðið fyrir neinu áreiti frá stuðningsmönnum Ísrael á mótmælum en að nú séu þeir nokkuð margir vegna Eurovision. „Þau voru að öskra á okkur og segja að við ættum að skammast okkar og svona. Sem var auðvitað svolítið óþægilegt af því að þau voru frekar ógnandi. Lögreglan var ekkert að stoppa þau í að áreita okkur. Þau voru mjög ógnandi.“
Komment