
Hnúfubakur hefur haldið sig innst í Reyðarfirði frá því í gærkvöldi. Samkvæmt heimamanni virðist hvalurinn vera á eftir æti, sem er í miklu magni í firðinum, og dvelur hann lengi í kafi í einu. Austurfrétt segir frá þessu.
Það var Páll Leifsson, náttúruunnandi á Eskifirði, sem fyrst benti Austurfrétt á nærveru hvalsins. Hann segir hann hafa synt inn undir Reyðarfjörð í gærkvöldi og verið nærri bryggjunni.
Gunnar B. Ólafsson, íbúi á Reyðarfirði, sá hvalinn síðar í dag og náði mynd af honum skammt innan við álverið. Þar virtist hvalurinn stefna út fjörðinn, en Gunnar telur að mögulega hafi minni hvalur, líklega kálfur, verið í för með honum.
Gunnar segir hnúfubakinn hverfa niður í kafi í 15 - 20 mínútur í senn, sem bendir til þess að hann sé að elta æti inn í fjörðinn. Hann bendir einnig á að mikið sé af æti á svæðinu, sem sjáist meðal annars á fjölda kría sem þarna hafa safnast saman.
Það er óalgengt að sjá stórhveli eins og hnúfubak svo langt inn í firði, að sögn Gunnars, þó það komi fyrir. Þá hafa sjaldgæfari tegundir líkt og mjaldur einnig sést þar áður. Algengara er að minni hvalir á borð við hnísur og hrefnur komi inn í fjörðinn. Í vetur sást þar til dæmis hópur hnísa, um 15 - 20 dýr að tölu.
Komment