
Hlutverk menntakerfisins er fyrst og fremst að skapa jöfn tækifæri en ekki jafna útkomu. Að búa til sterka einstaklinga sem geta staðið á eigin fótum og unnið saman, sér og samfélaginu til hagsbóta. Hlutverk kennara er meðal annars að tendra neistann í brjósti nemenda, að þeir sjái hag sinn í því að leggja sig fram og ná árangri.
Hvernig atvikaðist það þá að lakari námsárangur er að færast í aukana og framúrskarandi nemendum fer fækkandi? Gæti stefnumótun síðustu ára haft eitthvað með það að gera? Stefnumótun sem virðist að miklu leyti vera þvert á vilja kennara. Að móta kerfi út frá lægsta mögulega samnefnara og kalla það hæfni náð.
Frá mínum bæjardyrum séð hefur þetta valdið því að menntakerfið hefur hægt og rólega lent í þeirri gryfju að gera nemendur marga hverja jafn slaka. Með því að slá sífellt af kröfum verður minni hvati til þess að skara fram úr og leggja sig fram. Er það líklegt til að skila fleiri öflugum einstaklingum?
Eitt skýrasta dæmið er hávær hópur á samfélagsmiðlum sem hefur talað gegn heimanámi, því það eigi bara að klára allt í skólanum og þeir sem geti ekki fengið hjálp heima við græði ekkert á heimanámi. En hvað með nemendurna sem myndu græða á því að fá meira heimanám. Má þeim ekki ganga vel?
Höfundur er kennari
Komment