
Emil fæddist 31. júlí 1933 á Akranesi og ólst þar upp. Foreldrar hans voru Guðmundur Veturliði Bjarnason og Guðríður Gunnlaugsdóttir. Hann átti einn eldri bróður, Harald Ársæl, sem lést árið 2005.
Starfsferill Emils einkenndist af mikilli þátttöku í ferða- og flugrekstri. Hann var lengi hótelstjóri á Hótel Loftleiðum, eftir að hafa starfað sem stöðvarstjóri hjá Loftleiðum. Síðar varð hann svæðisstjóri hjá Flugleiðum, bæði hérlendis og erlendis, og tilheyrði þeirri kynslóð sem ruddi brautina fyrir alþjóðlega flugstarfsemi á Íslandi. Á efri árum skipulagði hann ferðir til Færeyja, Grænlands og Danmerkur, þar sem hann gegndi oft hlutverki fararstjóra.
Emil var einnig virkur í félagslífi og sat m.a. í stjórn Sögufélags Loftleiða. Hann stóð að reglulegum samfundum fyrrverandi starfsmanna og lagði sitt af mörkum til að viðhalda tengslum þeirra. Hann var einnig einn af stofnendum Hins íslenska skötufélags, sem haldið hefur árlega skötuveislu frá árinu 1971, ýmist á Akranesi eða í Hafnarfirði.
Eiginkona Emils, Sigurbjört Bíbí Gústafsdóttir, lést árið 2019. Þau eignuðust tvo syni: Kjartan Þór, fyrrverandi fluggagnafræðing hjá Isavia, og Ragnar, deildarstjóra hjá Orkubúi Vestfjarða. Emil átti fimm barnabörn og sjö barnabarnabörn.
Útför Emils fer fram í kyrrþey í Fossvogskirkju mánudaginn 28. apríl.
Komment