
Landhelgisgæslan stóð fyrir umfangsmiklum flutningi veiks farþega á föstudag, þegar beiðni barst frá skemmtiferðaskipi um aðstoð um 260 sjómílur austnorðaustur af Langanesi. Þetta kemur fram í frétt Austurfréttar.
Samkvæmt verklagsreglum Landhelgisgæslunnar eru tvær þyrlur kallaðar út þegar aðstoð er veitt í meira en 20 sjómílna fjarlægð frá landi. Önnur sinnir útkallinu sjálfu, en hin er til reiðu ef þörf krefur.
Auk þess var eftirlitsflugvélin TF-SIF kölluð til. Hún flaug á undan þyrlunni til að meta bestu flugleiðina og tryggja samskipti við stjórnstöð. Þykk þoka var á svæðinu og gegndi TF-SIF lykilhlutverki við að finna hentugan stað til að hífa sjúklinginn um borð, sem reyndist afgerandi fyrir árangur aðgerðarinnar.
Laust fyrir kvöldmat tókst að hífa farþegann um borð í þyrlu, þá um 150 sjómílur frá landi. Þyrlan flaug með sjúklinginn til Egilsstaða, þar sem hann var fluttur um borð í TF-SIF sem flaug honum áfram til Reykjavíkur.
Komment