
Heiðar Örn Sigurfinnsson segir það ekki skoðun RÚV að Ísrael sé að fremja þjóðarmorð á Palestínubúum heldur hafi alþjóðlegir aðilar skilgreint slíkt en Hermann Nökkvi Gunnarsson, blaðamaður Morgunblaðsins og framkvæmdastjóri SUS, birti færslu um helgina þar sem hann sakaði RÚV um pólitískan áróður.
„Hér fullyrðir RÚV að þjóðarmorð sé að eiga sér stað á Gasa. Þetta er ekki blaðamennska, þetta er pólitískur áróður sem skattgreiðendum ber að fjármagna,“ skrifaði blaðamaðurinn og birti mynd máli sínu til stuðnings.

„Það var ekki tekin sérstök ákvörðun um að kalla þetta þjóðarmorð innan fréttastofu. Það er ekki skoðun RÚV eða fréttastofunnar að þarna sé um þjóðarmorð að ræða heldur hafa aðrir komist að þeirri niðurstöðu. Reyndar ganga sumir lengra og líkja aðgerðum Ísraela við þjóðernishreinsanir,“ sagði Heiðar í samtali við Mannlíf um ummæli Hermanns.
Bendir Heiðar meðal annars á að Amnesty, Sameinuðu þjóðirnar og Þorgerður Katrínar Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra Íslands, hafi notast við slíkt orðbragð.
Komment