
Við verðum að fara að hætta að tala í hringi um þá alvarlegu stöðu sem er komin upp í fangelsiskerfinu. Kerfið er sprungið. Það er staðreynd sem við verðum að horfast í augu við, það er ekki lengur hægt að fela vandamálið með hálfkveðnum vísum af ótta við almenningsálit.
Fangelsismálastjóri lét hafa eftir sér í fréttum 28. apríl síðastliðinn að um 100 refsidómar hefðu fyrnst á síðasta ári, þar sem fangelsin ráða ekki lengur við það álag sem upp er komið. Við komum ekki lengur föngum inn til afplánunar, hvorki í hefðbundið fangelsi né í gæsluvarðhald.
En á sama tíma eru einstaklingar í kerfinu sem eru hæfir til að losna fyrr, ef litið er til hegðunar og félagslegra aðstæðna þeirra.
Það verður að innleiða hvata- og matskerfi fyrir fanga og meta þá einstaklinga sem hafa nýtt fangavistina vel, sýnt ábyrgð, bætt sig og eru hæfir til að snúa aftur út í samfélagið án þess að stofna öryggi þess í hættu. Það þarf að koma á kerfi þar sem fangar geta unnið sér inn frelsi með góðri hegðun og virkni. Þeir sem standast slíkt mat eiga að fá tækifæri til að losna fyrr, en þó með ákveðnum skilyrðum. Og um leið er hægt að stoppa í það gat sem hefur myndast að dómar fyrnist vegna þess að kerfið er sprungið.
Þetta er ekki lengur spurning um siðferðisvitund eða hvernig málið lítur út á forsíðu morgunblaðsins. Spurningin er þessi: Ætla fangelsismálayfirvöld að láta kerfið hrynja eða ætla þau að bregðast við?
Við þurfum að horfast í augu við það, að nýtt fangelsi mun ekki bjarga neinu í bráð, það hefur ekki enn verið tekin fyrsta skóflustungan fyrir því. Að treysta því að einhver framtíðar mannvirki leysi vandann er blind bjartsýni, á þær staðreyndir sem við stöndum fyrir núna.
Við getum ekki haldið áfram að stinga hausnum í sandinn. Við verður að fara að framkvæma. Ekki fleiri fundir, ekki fleiri skýrslur, ekki fleiri yfirborðskenndar yfirlýsingar um að eitthvað verði „skoðað“. Það þarf að taka ákvarðanir, sem eru byggðar á raunverulegu mati á áhættu og getu einstaklinga á endurkomu í samfélagið.
Þessi orð hljóma reglulega „vegna almannahagsmuna“, „til að tryggja öryggi almennings“, „til að særa ekki blygðunarkennd almennings“.
Það er algjört getuleysi að sitja aðgerðarlaus á meðan dómar fyrnast. Það er stjórnleysi. Og stjórnleysi í refsikerfinu þýðir að traust almennings á réttarríkinu minnkar.
Það má alltaf gera betur. Hvernig væri að stoppa í gatið?
Ólafur Ágúst Hraundal
Höfundur er lífskúnstner
Komment