
Margir hafa lýst áhyggjum af heilsufari Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, í gegnum árin, ekki síst eftir að hann hóf að vara landsmenn við sýklinum toxoplasma í evrópskum matvælum, en át síðan hrátt nautahakk beint úr bakka í vegkanti í kosningabaráttunni 2021, af því að það var íslenskt og hann er þjóðrækinn.
Morgunblaðið ákvað að nýta sér áhugann á heilsufari formannsins um helgina. Frétt blaðsins á vefnum varð sú mest lesna í vikunni. Hún hafði fyrirsögnina „Sigmundur Davíð smitaður af e-coli?“

Sigmundur bar hins vegar engin einkenni e-coli-sýkingar og enginn grunur var um að hann væri með sýkinguna. Þar af leiðandi var sannleiksgildi fyrirsagnar vinsælustu fréttar mbl.is í vikunni ekki neitt, þótt segja megi rökfræðilega að spurning sé aldrei formlega ósönn.
Fréttin var byggð á innslagi í þátt Stefáns Einars Stefánssonar, þáttarstjórnanda í Spursmálum og eins af „bestu vörumerkjum ársins“ 2024. Þar er farið yfir samfélagsmiðlafærslur vikunnar og ein umfjöllunin fjallaði um að Sigmundur hefði fengið sér „beef tartare“, sem er þekktur franskur forréttur.
„Vonandi er hann ekki sárþjáður af E.coli bakteríusýkingu,“ sagði í umfjölluninni. „Það er mikilvægt að gegnsteikja matvæli úr nautgripum. Talað um við 71° „at least“. Það þarf nú einhver að fara kenna þessum gæja á eldavél - hann er orðinn fimmtugur sko,“ segir í umfjölluninni.
Þannig varð falsfrétt að mest lesnu frétt Morgunblaðsins þessa vikuna með heimagerðri smellibeitu frá grunni.
Komment