
Með hækkandi sól og vorilm í lofti hefst nú tími dimisjónanna en víða um borg og bæ um landið má nú sjá torfur af stúdentum í furðubúningum og áfengi um hönd.
Fjölmargir menntskælingar útskrifast um þetta leyti í framhaldsskólum landsins og er því ekki óalgeng sjón þessa dagana að sjá eldhressa stúdenda, klædda í misfurðulegum búningum, syngjandi og trallandi um miðborg Reykjavíkur og um bæi landsbyggðarinnar. Þannig hefur það verið í áratugi og mun vonandi halda áfram um ókomna tíð.

Í Reykjavík hafa meðal annarra sést hópar mörgæsa marsera um miðbæinn sem og dreka, Bangsimona, Stitch úr Lilo and Stitch, sjómenn, VÆB, Stubbarnir og Donald Trump, svo örfáir séu nefndir.

Furðulosnir ferðamenn hafa horft gapandi á og ekki skilið neitt í neinu og kannski best að segja þeim ekkert frá ástæðunni fyrir skringilegheitunum.
Komment