
Söngvarinn Chris Brown kom fyrir dóm í dag, þar sem hann svarar til saka fyrir grófa líkamsárás með ásetningi vegna meintrar árásar á næturklúbbi í Lundúnum í febrúar 2023.
Brown, sem er 36 ára, mætti fyrir dóm í Manchester í morgun eftir að hafa verið handtekinn á fimm stjörnu hóteli í borginni. Honum er gefið að sök að hafa ráðist á mann með flösku á næturklúbbnum Tape í London í febrúar í hittifyrra. Hann hafði komið til Manchester í einkaþotu á miðvikudag og dvaldi á The Lowry Hotel þegar lögregla í London handtók hann stuttu eftir klukkan tvö aðfaranótt fimmtudags.
Talið er að Brown hafi veist að tónlistarframleiðandanum Abe Diaw með flösku, sem olli honum alvarlegum meiðslum. Hann var síðar ákærður fyrir brotið.
Adele Kelly, aðstoðaryfirsaksóknari hjá embætti ríkissaksóknara í Norður-Lundúnum, sagði í yfirlýsingu í gærkvöldi:
„Við höfum veitt lögreglunni í Lundúnum heimild til að ákæra Chris Brown fyrir eina ákæru um grófa líkamsárás með ásetningi, samkvæmt 18. grein í lögum um líkamsárás frá 1861.
Atvikið átti sér stað í Lundúnum þann 16. febrúar 2023. Fyrsta þinghald í málinu hófst í dag í dómstóli í Manchester. Saksóknaraembættið vill minna á að málið er í fullum gangi og að sakborningurinn eigi rétt á réttlátri málsmeðferð.
„Það er gríðarlega mikilvægt að engin umfjöllun, athugasemdir eða dreifing upplýsinga á netinu hafi áhrif á gang málsins.“
Talsmaður lögreglunnar í London sagði eftir handtökuna:
„36 ára gamall karlmaður var handtekinn á hóteli í Manchester skömmu eftir klukkan tvö aðfaranótt fimmtudags, 15. maí, grunaður um alvarlega líkamsárás. Hann var færður í varðhald þar sem hann dvelur enn.“
Komment