
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk tilkynningu um mann vopnaðan skotvopni á Hverfisgötu, og var sérsveitin kölluð út vegna málsins. Einn einstaklingur hefur verið handtekinn og málið er enn í rannsókn.
Mbl.is var fyrst að greina frá aðgerð lögreglunnar, þar sem loka þurfti Hverfisgötu, Lindargötu, Vitastíg og Klapparstíg.
Ásmundur Rúnar Gylfason, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sagði í samtali við Vísi: „Lögreglan fékk tilkynningu um aðila sem væri vopnaður skotvopni þarna í íbúð við Hverfisgötu. Þess vegna var götum lokað og lögreglan með aðgerð,“
Þegar hann var spurður hvort viðkomandi hefði verið vopnaður, sagði Ásmundur: „Málið er enn í vinnslu og enn í rannsókn. Það er allavega búið að tryggja aðila og hann handtekinn.“
Aðgerðinni er lokið og öllum lokunum aflétt. Að sögn Ásmundar stóð aðgerðin yfir frá hálf sjö til rúmlega átta.
Komment