
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hafnar því alfarið að hafa verið drukkin þegar hún flutti ræðu á Alþingi fyrr í vikunni.
Bæði Mannlíf og Vísir greindu frá því að ræða Áslaugar hafi vakið athygli í samfélaginu og töldu einhverjir að Áslaug hafi verið drukkin í pontu. Mannlíf hafði samband við Áslaugu til að spyrja út í ræðu hennar en fékk ekki nein svör.
Í athugasemd sem Jakob Bjarnar Grétarsson, blaðamaður á Vísi, skrifar á Facebook segir hann miðilinn hafa reynt í þrjá daga að ná í Áslaugu til að spyrjast fyrir um málið, án árangurs.
„Vísir heldur því síðan fram að ég hafi verið „slompuð” á Alþingi, það er líka rangt,“ segir ráðherrann fyrrverandi á samfélagsmiðlum. „Í vikunni var fádæma veðurblíða og virtust flestir Íslendingar njóta sólargeislanna. Sjálf fékk ég mér vínglas á meðan ég spilaði Backgammon með vinkonu og nældi mér í sólbruna. Af þessu birtist mynd á samfélagsmiðlum. Þá hélt ég ræðu fyrir erlenda gesti um íslenska nýsköpun ofl. í BioEffect, þar sem ég skálaði við þá en þáði þó bara kaffi að drekka, ekki að það kalli á nákvæmar útlistingar. Mannlíf tók upp á því að gera þetta tortryggilegt, birti myndina á vefsíðu sinni og lét að því liggja að ég hefði mætt óvenju þreytt í ræðustól Alþingis síðla kvölds sama dag. Nú hafa fleiri miðlar tekið í sama lágkúrulega streng. Þetta eru auðvitað fráleitar ávirðingar að láta liggja að einhverju sem stenst enga skoðun og kollegar mínir geta staðfest.“
Hægt er að sjá umrætt myndband af Áslaugu hér fyrir neðan
Komment