
Anna Kristjánsdóttir telur sig ábyrga fyrir sumrinu á Íslandi síðustu árin.
Vélstjórinn fyndni, Anna Kristjánsdóttir skrifar um veðrið í nýjustu dagbókarfærslu sinni á Facebook, eins og svo oft áður, en hún býr eins og alþjóð veit á Tenerife.
Vinur Önnu sendi henni skjáskot af veðurspánni fyrir helgina en hitinn á að vera hærri á Íslandi en á Tenerife. En Anna er búin að uppgötva hvað málið er, því hún sér tenginu á milli slæms sumars á Íslandi og heimsóknar hennar til landsins á sama tíma.
„Ég kom ekkert til Íslands árið 2022 og mér skilst að þá hafi verið gott sumar á Íslandi. Ég kom svo aftur til Íslands í maí 2023 og stoppaði í þrjár vikur og það var blautt og kalt allan tímann, en sumarið kom samt eftir að ég var farin. Árið 2024 stoppaði ég í fimm vikur í maí og júní og það var nóg til að eyðileggja allt sumarið fyrir Íslendingum. Ég er ekkert á leiðinni til Íslands sumarið 2025 og viti menn. Það er sól og sumar alla daga á meðan mikið hæðarsvæði í hafinu ýtir kuldanum suður með Evrópuströndum og alla leiðina til Tenerife og hér skjálfum við úr kulda kvöld eftir kvöld og þráum ekkert meira en að komast í sumar og sól austur á landi.“
Anna segir lesendur hljóta nú hafa kveikt á perunni, að þetta sé allt henni að kenna. Segir hún ennfremur að Íslendingar ættu að borga henni sérstaklega fyrir að koma ekki til Íslands á sumrin.
„Þið hljótið nú að hafa áttað ykkur á stöðu mála. Þetta er allt mér að kenna og að ég er kuldaboli og að Íslendingar ættu að greiða mér sérstaklega fyrir að halda mér sem lengst í burtu frá Íslandi og þið munuð uppskera og fáið sól og sumar allt árið um kring.
Ég sendi ykkur svo upplýsingar um bankanúmer og kennitölu þegar þið hafið fallist á að greiða mér hæfilega upphæð fyrir að halda mér fjarri.“
Komment